1. Vandamál

Árið 2018 fóru um 2,5 milljónir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og var það metár í ferðaþjónustu. Raunar höfðu öll ár frá 2010 verið metár, þar sem fjöldi ferðamanna sem kom til landsins bara jókst og jókst. Eftir örlitla fækkun árið 2019 bjóst fólk í ferðaþjónustuni við að árið 2020 yrði sambærilegt — sennilega kæmu færri ferðamenn en árið 2018, en að árið yrði samt sem áður tiltölulega gott og gjöfult.

Svo kom COVID-19.

Í síðasta hefti Peningamála Seðlabankans (2020/2) gerir bankinn ráð fyrir því í grunnspá sinni að það sem eftir lifir ársins muni einungis um 50.000 ferðamenn koma til landsins. Ef sú spá reynist rétt verður hrun í fjölda erlendra ferðamanna sem eru í landinu í hverjum mánuði, eins og grafið að neðan sýnir

Fjöldi ferðamanna

Þetta hrun í fjölda ferðamanna hefur nú þegar haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir hagkerfi Íslands. Mikill fjöldi fólks starfar í ferðamannaiðnaðinum og hann er sú útflutningsgrein sem hefur dregið inn mestar erlendar tekjur síðustu ár. Atvinnuleysi í apríl 2020 var 18% (samanlögð tala úr almenna bótakerfinu og úrræði stjórnvalda um minnkað starfshlutfall) og fjármálaráðherra sagði að „þetta stefnir í að verða ein mesta krísa í hundrað ár á Íslandi“

2. Lausn

Ljóst er að engin ein lausn mun leysa öll þau vandamál sem orsakast af hruni í fjölda ferðamanna til landsins vegna COVID-19. Til þess að minnka áhrif samdráttarins á þjóðarbúið þarf margs konar úrræði. Stjórnvöld hafa nú þegar tilkynnt mörg slík: hlutabótaleið, brúarlán til fyrirtækja, seinkun á greiðslu skatta — og 5000 króna stafræna ávísun á ferðaupplifun fyrir alla Íslendinga eldri en 18 ára.

Þessi ferðaávísun stjórnvalda er einn hluti af stærra markmiði; að fá Íslendinga til þess að ferðast um landið sitt í ár. Að Íslendingar heimsæki sundlaugar og lón, að þeir borði á veitingastöðum og sjoppum víðsvegar um landið, að þeir gisti á hótelum og gististöðum fjarri heimabyggð.

Teymið okkar vill leggja sitt af mörkum við að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands í ár. Hugmyndin okkar er app sem hvetur alla landsmenn að ferðast um Ísland og skapar stemningu í þjóðfélaginu um ferðalög innanlands. Nafnið á appinu er því Áskorun 2020, enda er markmiðið að skora á Íslendinga að ferðast um landið.

Appið Áskorun 2020 gengur út á svokallað gamification af ferðalagaupplifuninni.

Gamification snýst um að gera hversdagslega (og jafnvel leiðinlega) hluti skemmtilega með því að gera þá að leik eða keppni. Fólk hefur gaman að því að leika sér og að keppa við hvert annað. Þekkt dæmi um gamification eru til að mynda:

 • Pokemon Go (leikur sem fær fólk til að hreyfa sig)
 • Strava (keppnis- og samfélagsmiðill sem ýtir undir hreyfingu)
 • Duolingo (app sem gerir tungumálalærdóm að skemmtilegum leik)

Áskorun 2020 er app fyrir bæði Android og iPhone sem mun hvetja til ferðalaga um landið og gera þau skemmtilegri. Þegar appið er keyrt getur notandinn séð lista yfir áhugaverða staði í nágrenninu. Þessir staðir falla í fjóra flokka:

 • Sundlaugar
 • Bæir og þorp
 • Fjöll
 • Fossar

Notandinn getur séð á korti hvar þessir staðir eru. Þegar notandinn kemur svo að áhugaverðum stað mun appið greina það og bjóða notendanum að stimpla sig inn á staðinn. Notandinn getur gert það og mun svo geta tekið sjálfu (selfie) á staðnum. Í appinu mun einnig vera stigaborð (leaderbord) þar sem hægt er að sjá hver hefur stimplað sig inn á flesta staði. Einnig verður hægt að sjá eftirfarandi undirflokka:

 • Fjallageitur (þau sem hafa heimsótt flest fjöll)
 • Sundgarpar (þau sem hafa farið í flestar sundlaugar) *Landshornaflakkarar (þau sem hafa heimsótt flesta bæi á landinu)
 • Fossavinir (þau sem hafa heimsótt flestra fossa á landinu)

3. Tæknileg útfærsla

Appið er skrifað í React Native (Expo). Bakendinn er skrifaður í JavaScript, keyrður á Node.js og hýstur hjá AWS. Listi yfir fossa, sundlaugar og þéttbýli (og hnit þeirra) koma frá Ferðamálastofu og Landmælingum Íslands. Myndir og önnur grafík eru fengin frá Vegagerðinni og Wikimedia.

4. Vinna helgarinnar og vandamál sem komu upp

Yfir helgina fengum við hugmyndina, og töluðum okkur svo saman um hvað Áskorun 2020 þyrfti til brunns að bera. Því næst útfærðum við prótótýpu að appi, og settum loks saman kynningu um verkefnið. Aðalvandamálin sem við stóðum frammi fyrir var að finna góð geolocation gögn um fossa, bæi og fjöll á landinu — en einnig að finna góðar ljósmyndir án notkunartakmarkana sem nota mætti í appinu.

5. Áframhald verkefnisins

Til þess að verkefnið haldi áfram þarf að okkar mati fimm hluti:

 1. Fara þarf yfir kóða appsins og betrumbæta, og svo mögulega gera hann open source
 2. Prófa þarf appið á mismunandi símum (og þá helst mismunandi Android módelum)
 3. Stress-testa þarf appið svo það höndli upp að 50-100.000 notendendur samtímis
 4. Gefa þarf appið út í Google Play og App Store
 5. Kynna þarf appið í fjölmiðlum og mögulega auglýsa það

6. Gildi verkefnisins eftir COVID-19

Hvert er eiginlega gildi verkefnisins eftir að COVID-19 er lokið, hvenær svo sem það verður? Við þeirri spurningu eru nokkur svör. Appið gæti hvatt fólk til þess að sjá meira af landinu sínu og kynnast því betur. Appið gæti gert ferðalög ársins skemmtilegri. Appið gæti hjálpað fyrirtækjum og fólki sem berst í bökkum vegna fækkunar erlendra ferðamanna með því að hvetja fólk til ferðalaga innanlands. Appið gæti einnig komið með ákveðna gleði og jákvæðni inn í sumarið, eftir ár sem hefur verið erfitt fyrir marga.

7) Prótótýpa

Hægt er að prófa prótótýpuna af appinu bæði í Android og iOS með því að sækja app sem heitir “Expo” / “Expo Client” og skanna svo QR kóðann sem finnst á eftirfarandi vefslóð:

https://expo.io/@svngr4/askorun2020

8) Vídeó

https://www.youtube.com/watch?v=Fy95ACfiDg4

Share this project:

Updates